<$BlogRSDURL$>

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Robbie rokkar 

Skrapp um helgina til Gautaborgar til að hlýða á Robbie Williams á Ullevi, sem er fótboltaleikvangur þeirra Gautverja og hýsti um 60 þúsund æsta Robbie Williams áhangendur. Ég flaug til Kaupmannahafnar á föstudaginn og gisti hjá Halla og Yöldu eina nótt áður en ég hélt upp til Gautaborgar í lest morguninn eftir. Úti var sól og blíða og hvorki meira né minna en 30°C hiti langt fram á kvöld. Við Lína vinkona vorum nú alls ekkert ósáttar við það að geta farið bara á hlýrabol og stuttbuxum á svona tónleika. Húsið var opnað um fimm, en við ákváðum að það væri mátulegt að mæta svona um hálf átta á tónleikana. Basement Jaxx hitaði upp fyrir Robbie og stóðu þau sig alveg ágætilega, en greinilegt var að hljóðkerfið var ekki alveg nógu vel stillt fyrir þau. Ég skemmti mér því mun betur þegar ég sá þau á Coachella hér um árið. Um hálf tíu kom svo Robbie á sviðið og þvílík innkoma. Hann kom upp á sviðið um lúgu í gólfinu yst úti á catwalkinum með alls konar reyk og læti í kringum sig. Showið var heldur ekki af verri endanum en á sviðinu voru risavaxnir skjáir sem sýndu allt í smáatriðum, rosalegt ljósashow, flugeldar og eldvörpur. Robbie var greinilega í stuði þrátt fyrir að England hafi dottið út úr heimsmeistarakeppninni fyrr um kvöldið, en bað áheyrendur um stuðning, með því að syngja hátt og snjallt með í öllum lögum. Það gekk líka svona vel að áhorfendur fengu hæstu einkunn bæði frá Robbie og frá gagnrýnendum sænsku blaðanna. Ég er mjög ánægt með lagavalið, en eiginlega eina lagið sem ég virkilega saknaði á tónleikunum var No regrets, sem mér finnst alveg prýðilegt lag.

Lögin sem hann tók voru hins vegar: Radio, Rock DJ, Tripping, Monsoon, Sin sin sin, Millennium, Make me pure, Me and my shadow, Strong (þar sem hann lét textann rúlla á skjánum og þannig sungu allir með), Back for Good (Gamla Take That lagið), Advertising Space, A Place to crash, Come undone og Feel.

Sem aukalög tók hann svo Let me entertain you, Angels og Kids, en þa var alveg magnaður endir á æðislegum tónleikum.

Ég fékk að gista heima hjá Línu um nóttina og hélt svo aftur suður til Malmö á sunnudaginn. Við fórum þó í smá göngutúr um lítið vatn rétt hjá hverfinu hennar og það var mjög kósý svona í öllum hitanum að komast út. Þegar ég kom til Malmö var mér hins vegar boðið í grillveislu hjá tengdaforeldrum bróður míns og ég held ég hafi aldrei séð jafn mikinn mat. Allt var svo gott og það var alveg víst að ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að ég yrði svöng í fluginu þrátt fyrir að borða ekki flugvélamatinn. Þegar ég kom til Kastrup var lengsta biðröð sem ég hef nokkurn tíma séð inn í inntékkið vegna verkfalls vallarstarfsmanna. Sem betur fór hafði ég fengið flugfreyjutöskuna hennar mömmu lánaða og gat því tékkað mig inn í svona sjálfsala og slapp með þeim hætti við röðina. Frétti svo eftir á að fólk hefði beðið í meira en tvo tíma eftir afgreiðslu og margir náðu jafnvel ekki að tékka inn fyrr en eftir að vélin átti að vera farin af stað. Það var því alveg eins og hálfs klst. seinkunn á mínu flugi sem verður að teljast nokkuð gott miðað við það að express vélarnar seinkuðust um þrjá eða fjóra tíma. Þetta gekk því mun betur en á horfðist.

Ég er búin að vera ansi þreytt eftir þessa ferð, en hún var rosalega skemmtileg og það er nú fyrir mestu :) Verð að finna mér fleiri svona tónleika til að skreppa á síðar, en þetta er svo skemmtilegt.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Sálsveitin Skuldbinding 

Fór í gærkvöldi á leiksýningu Lúðrasveitar Seltjarnarness þar sem sveitin var að setja upp söngleikinn Sálsveitin Skuldbinding, sem er söngleikur í anda myndarinnar the Commitments frá 1991. Ég hef bara sjaldan farið á jafn mikla stuðsýningu og ég skemmti mér alveg rosalega vel. Krakkarnir eru rosalega hæfileikaríkir og þau gætu auðveldlega lagt þetta fyrir sig, það er ekki spurning. Ef þau hefðu áhuga gætu þau hæglega orðið vinsælasta ballhljómsveit landsins þar að auki. Ég segi bara hvar og hvenær verður ballið og ég mæti :)

mánudagur, mars 06, 2006

Kammerkórinn kominn með nýja heimasíðu 

Nýstofnaði kammerkórinn okkar er kominn með heimasíðu og því fannst mér upplagt að bæta henni inn í hlekkina :)

miðvikudagur, mars 01, 2006

Depeche Mode í Parken 

Fór á æðislega tónleika með Depeche Mode í Parken í Kaupmannahöfn um helgina og er alveg í skýjunum eftir þá. Þetta voru langflottustutónleikar sem ég hef farið á og hef ég nú samt séð sitt lítið að hverju. Þeim tókst meira að segja að toppa sjálfa sig frá 2001 er ég sá þá í Globen í Stokkhólmi. Berlinske tidende gefa tónleikunum svo alveg svakalega einkunn eða fimm stjörnur af sex mögulegum. Ekki amalegt það. Um 40 000 manns voru á tónleikunum og það er magnað að sjá þennan fjölda syngja með og koma með allar réttar hreyfingar á réttum stöðum, sbr. Reach out and touch faith í Personal Jesus og sveiflan í lok Never let me down again. Einfaldlega alveg magnað :)

Lögin sem voru spiluð á tónleikunum voru:

Intro
A Pain That I'm Used To
John The Revelator
A Question Of Time
Policy Of Truth
Precious
Walking In My Shoes
Suffer Well
Damaged People
Home
I Want It All
The Sinner In Me
I Feel You
Behind The Wheel
World In My Eyes
Personal Jesus
Enjoy The Silence
encore
Shake The Disease
Just Can't Get Enough
Everything Counts
encore #2
Never Let Me Down Again
Goodnight Lovers

Sérstaklega gaman var að heyra Just Can't get enough, en mér skilst að þeir hafi ekki spilað það lag á tónleikum í áraraðir. Þá var einstaklega ánægjulegt hvað þeir voru búnir að rokka öll lögin upp til að henta tónleikunum betur. Einnig má nefna að Martin og Dave stóðu úti á kattahryggnum (catwalk) í síðasta laginu og sungu það með einstaklega mikilli tilfinningu, haldandi utan um hvorn annan til marks um það að þeir séu nú enn vinir þrátt fyrir allt sem undan er gengið.

Ég fór vel sátt af þessum tónleikum og skemmti mér konunglega og kom út af þeim gjörsamlega raddlaus eins og vera ber af góðum rokktónleikum. Ég vona að aðrir hafi skemmt sér jafnvel og ég og að söngkennarinn minn skammi mig ekki mjög mikið fyrir hæsina í næsta tíma :)

Verst var að missa af fyrstu kóræfingunni í nýstofnuðum Kammerkór MR stúdenta. En maður getur víst ekki verið alls staðar.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Hitt og þetta 

Fór á síðuna hennar Siggu frænku og stóðst ekki mátið að tala þessa áhugasviðskönnun. Ég held að allir geti verið sammála um að ég sé á réttri hillu miðað við þessar niðurstöður:

You scored as Chemistry. You should be a Chemistry major! As if that isnt clear enough, you are deeply passionate about Chemistry, and every single chemical reaction and concept fascinates you. Pursue that!

Mathematics

100%

Engineering

100%

Chemistry

100%

Biology

92%

Theater

75%

Dance

75%

Philosophy

75%

Sociology

75%

Psychology

67%

Linguistics

58%

English

58%

Anthropology

42%

Art

42%

Journalism

17%

What is your Perfect Major? (PLEASE RATE ME!!<3)
created with QuizFarm.com


Ekki nóg með að ég hef valið rétt að fara í efnaverkfræði, heldur kemur söngurinn líka inn. Ég segi bara Q.E.D.


Er annars að fara út til Svíþjóðar og Danmerkur á morgun, en stefnan er sett á Depeche Mode tónleika í Parken á laugardagskvöldið. Fyrir þá sem hafa misst af því að ég hlakka geðveikt til langaði mig bara að undirstrika það enn einu sinni.....ÉG HLAKKA GEÐVEIKT TIL. Takk fyrir :)

mánudagur, október 17, 2005

Klukkuð 

Jæja það kom að því að Siggu frænku tókst að klukka mig í bloggklukkleiknum mikla. Hér eru því fimm tilgangslausar staðreyndir um mig:

1. Ég er án nokkurs efa mesti aðdáandi Depeche Mode á Íslandi, en ég hef hlýtt á tónlist þeirra síðan ég var átta ára gömul. Ég á næstum því allt sem þeir hafa gefið út og kann því nær alla texta og lög eftir Martin L. Gore auk þess að vita allt helsta slúðrið um liðsmenn sveitarinnar. Þessi mikla dýrkun á sveitinni er Halla bróður að þakka (eða kenna eftir því hvernig litið er á málið). Ég hef séð þá live einu sinni í Stokkhólmi 21. september 2001 en brátt verður bót á því en ég fer ásamt bræðrum mínum að sjá þá í Parken í febrúar næstkomandi. Ég hlakka því rosalega til. Benda má áhugasömum á að nýja platan þeirra, Playing the Angel, kemur þar að auki út í dag.

2. Ég hef alltaf haft gaman af því að syngja. Allt frá 2-3 ára aldur hefur sippubandið þjónað tilgangi hljóðnema með mikilli prýði. Ég á einnig metið hvað varðar að vera lengi í Kór Menntaskólans í Reykjavík, en ég var í honum í sjö ár samfleytt, þar af fjögur ár eftir að ég útskrifaðist úr MR. Í dag syng ég í Háskólakórnum þess á milli sem ég hleyp úr vinnunni eða úr söngskólanum í Reykjavík.

3. Ég hef búið í Svíþjóð hálfa mín ævi eða alls tólf og hálft ár. Ég flutti þangað fyrst tveggja ára ásamt fjölskyldu minni og bjuggum við úti þá í ellefu og hálft ár á meðan foreldrar mínir voru við nám þar. Þá tóku við tíu ár á Íslandi, svo hálft ár í sólinni í Santa Barbara, Kalíforníu og svo að lokum eitt ár aftur í Svíþjóð þar sem ég stunda nú nám. Eins og er er ég stödd á Íslandi að vinna að meistaraverkefni mínu en er þó skráð með lögheimili í Svíþjóð bara svona til að flækja málin.

4. Ég sagðist aldrei, aldrei, aldrei ætla að koma nálægt eðlisfræði aftur eftir að hafa haft Davíð Þorsteinsson sem kennara. Kaldhæðnin er nú samt sú að ég er að klára nám í efna- og EÐLISverkfræði og hef reyndar verið skráð við eðlisfræðiskor HÍ á námsferlinum líka. Svo fór sem sagt um sjóferð þá.

5. Ég á það til að segja hreint einstaklega slæma fimmaurabrandara og þá sérstaklega í nálægð við bræður mína eða Siggu frænku. Eru brandararnir svo slæmir að bæði Snorri og Ísi þyrftu að hafa varann á :) Það er verst að þeir líta sjaldan dagsins ljós innan um venjulegt fólk (brandarararnir þ.e.a.s.)


Þetta voru sem sagt fimm gjörsamlega tilgangslaus atriði um sjálfa mig. Ég vil því enda á því að klukka Sindra, en blogg hefur ekki sést í langan tíma frá Dvergnum. Kominn tími til að bæta úr því.

miðvikudagur, október 05, 2005

Undur og stórmerki 

Já ýmislegt hefur gerst síðan ég bloggaði síðast og því frá mörgu að segja. Fyrst má nefna að ég er byrjuð á fullu aftur að góla í Söngskólanum í Reykjavík eftir fimm ára hlé og er það hin besta skemmtun. Því fór ég líka að hlusta á masterclass-námskeiðið hjá Kiri Te Kanawa og vá hvað hægt var að læra sniðuga hluti hjá henni. Líka gott að heyra að reyndir söngvarar séu í sömu grundvallarvandræðum og maður sjálfur eins og hvað varðar rétta öndun og stuðning osfrv. Það eykur þrótt og tiltrú á að ég geti þetta líka (að einhverju leyti a.m.k.).

Eins og það sé ekki nóg að góla í söngskólanum er ég einnig byrjuð aftur í Háskólakórnum. Þar eru fullt af skemmtilegum krökkum og heilmikið félagslíf. Til dæmis verður farið í æfingabúðir næstkomandi helgi í Hlíðadalsskóla og verður það örugglega þvílíkt stuð. Lögin sem við erum að syngja eru líka alveg sæmilega skemmtileg svo ekki er hægt að kvarta undan einu né neinu þar. Nema kannski hvað ég þarf að læra mörg ný nöfn allt í einu...úff ég er svo hrikalega léleg í að muna nöfn.

Karen er líka búin að vera rosalega dugleg að draga mig á tónleika og hin og þessi skemmtilegheit og vinnur hörðum höndum að því að gera mig svolítið menningarsinnaðari. Það er svo margt í boði en einhverrar vegna fer maður aldrei neitt. Haltu þessu því endilega áfram Karen, ekki veitir af :)

Undur og stórmerki eru einnig að gerast í vinnunni, en tækið er loksins farið að hegða sér almennilega eftir þvílíkar viðgerðir og læti. Ég ætti því núna að geta mælt alveg á fullu næstu vikur. Því er alveg raunhæft að áætla að ég klári þetta meistaraverkefni fyrir áramót, þ.e.a.s. ef ekkert meiriháttar klúður kemur fyrir í millitíðinni.

Síðast en alls ekki síst, þá er ég á leiðinni á tónleika með Depeche Mode í Parken þann 25. febrúar næstkomandi með bræðrum mínum og ég get ekki beðið. Þetta verður í annað sinn sem ég sé þá live, en ég fór á tónleika í síðustu tónleikaröð þeirra 2001 í Stokkhólmi. Ég verð bara að muna að biðja Martin Gore um eiginhandaráritun í þetta sinn ef ég skyldi nú hitta hann úti á götu aftur :)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?